25.5.2011 | 08:28
Fluttur
15.4.2011 | 10:21
Enn um blessaðan plastferhyrninginn.
Eins og þeir sem þetta lesa eru sjálfsagt búnir að átta sig á, er ég lítið fyrir plast. Þessi andúð mín nær einnig til plastspjaldanna sem við notum til að borga með. Reyndar lagði ég VISA kortinu fyrir 3 árum. En Debetkortið er ég því miður enn að nota - fylgist bara rosalega vel með hvað fer út af því. En af hverju þessi andstyggð á kreditkortum?
Jú sjáið nú til.
Ástæða þess að það borgar sig að nota frekar peninga (þar er annars vegar um að ræða blöð með lit , tölustöfum og myndum sem sýna ákveðin verðgildi og hins vegar kringlulaga mynt úr málmi sem einnig hafa tölur og myndir sem tákna verðgildi
Þannig var nú það. Og þetta er skemmtilegasta og mest "eye opening" útskýring sem ég hef fengið á kreditkortinu. Og var ekki lengi að leggja því - ætla sko ekki að gefa bönkunum og auðmönnunum meira en ég hef nú þegar gert
Hér er líka gagnleg umfjöllun um krítarkortin.

11.4.2010 | 00:29
Óvænt útgjöld
Hef verið óvenju blönk upp á síðakastið en það er vegna óvæntra útgjalda sem komu upp tvo mánuði í röð og ekki fékkst ráðið við. Og þá var nú gott að eiga varasjóð (þótt hann dygði nú reyndar ekki til). Það munar nefnilega um hverja krónuna sem þarf að taka að láni. Varasjóðinn held ég einmitt fyrir svona óvænt útgjöld - bíllinn bilar eða þvottavélin bræðir úr sér. Ég legg til hliðar 5 - 10 þúsund krónur á mánuði á sérstakan reikning sem ekki er snertur nema í neyð. Ef ekkert gerist fitnar hann hægt og sígandi og einhverntíman kemur kannski að því að hægt er að endurskoða tilgang hans og breyta honum í t.d. ferðasjóð - en þangað til er hann ómissandi búskaparfélagi sem virkar sem öryggisnet ef upp koma óvænt útgjöld.
20.1.2010 | 17:46
Meira um matarafganga
Rakst á þessa færslu á RUV.is og ákvað að deila með ykkur.
5.1.2010 | 23:40
Jólin búin
Jæja - þar renna jólin sitt skeið. Hafði ekki brjóst í mér að nurla í jólamatnum þannig að undanfarinn hálfan mánuð hefur fjölskyldan staðið á blístri og haft það betra en alla hina 350 daga ársins. Enda sést það á mittismálinu
En nú skal blaðinu snúið við - í kvöldmatinn nú var grjónagrautur, egg og rúgbrauð. Og svo eru til smá kjötafgangar frá jólum sem ætlunin er að nýta um leið og ofátsbjúgurinn hefur runnið af mannskapnum Ég er eiginlega hálffegin að komast aftur í rútínuna með matar- og innkaupalistann. Og nú þarf að reikna matarafgangana inn í því það er ákaflega mikilvægt að kunna að elda lystilegan mat úr afgöngum. Þetta gerðu formæður okkar og eins ættum við að leggja okkur fram um að nýta vel allan mat. því nú má einnig reikna með að það fari að harðna á dalnum.
Bixímatur úr afgangskjöti:
Afgangskjöt (ekki reykt) í litlum bitum steikt á pönnu. Í feitinni af því er steiktur einn smátt skorinn laukur þannig að hann mýkist en brenni ekki. Tekinn af pönnunni og á henni steiktar smátt sneiddar soðnar kartöflur þar til þær hafa tekið gullinn lit. Þá er kjötinu og lauknum hellt aftur á pönnuna, saltað aðeins og piprað yfir og hitað vel í gegn. Borið fram með heitu rauðkáli. Sumir vilja líka hafa með þessu spælegg.
Tartalettur með hamborgarhryggsfyllingu:
Búið til þykkt uppstúf úr safanum úr einni dós af niðursoðnum sveppum, settur smá sítrónusafi út í, og smátt skornum bitum af hamborgarhrygg og sveppunum blandað saman við. Hitað vel saman. Sett í tartalettur (það má líka nota brauðsneiðar) og sett sneið af mildum osti yfir. Hitað í ofni við 200°C þar til osturinn hefur bráðnað. Með þessu er gott að hafa rauðkál og/eða eplasalat.
Eplasalat:
Þetta salat er mjög vinsælt heima hjá mér um jólin og fer einstaklega vel með hamborgarhrygg. Þrjú Fiji epli eða rauð epli skorin í litla teninga. Tveir til þrír stönglar af sellerí skornir í örsmáa bita. Einn bolli af smátt skornum rauðbeðum. Hálf dós af sýrðum rjóma og einn bolli majones hrært saman og síðan er öllum hráefnunum blandað saman. Kælt í a.m.k. klukkutíma áður en það er borðað.
Grjónagrautarlummur:
Slatti af afgangs grjónagraut hrærður vel upp þannig að hann sé kekkjalaus. Tvö egg hrærð út í og síðan smá mjólk. Bætt í hræruna slettu af vanilludropum og teskeið af sykri. Einn bolli af hveiti og teskeið af lyftidufti hrærð út í og síðan er mjólk hrærð hægt saman við þar til blandan er álíka þykk og vellingur. Ekki hafa hana of þunna því þá lekur hún út og grjónin standa upp úr. Að lokum er bætt í blönduna 1/4 bolla af bráðnu smjörlíki og panna smurð vel með því sama. Hitið pönnuna í miðlungshita og setjið blönduna með stórri matskeið/sósuausu í 5 - 10 cm klatta á hana. Steikið þar til brúnirnar hafa þornað og loftbólur stíga í gegn um lummuna. Snúið þá við og steikið ljósbrúnar hinum megin. Ath. að hafa ekki of mikinn hita því þá steikjast lummurnar að utan en verða hráar að innan. Í minni fjölskyldu þykir rosa gott að hafa eplamauk og sultu með lummunum en sumir vilja síróp og sykur. Allt eftir smag og behag. Ég hef líka prófað að nota hafragraut í lummur og það virkar alveg sæmilega en er ekki eins auðvelt og gott.
Skinkuskonsur:
Skonsudeig búið til úr hálfum lítra af hveiti, tveim teskeiðum af lyftidufti, teskeið af salti, tveim eggjum. Mjólk blandað í þar til deigið er á þykkt við vöffludeig. Þá er bræddu smjörlíki blandað út í og pönnukökupannan einnig smurð með smjörlíki. Deigið látið dreifa sér yfir pönnuna og skonsan steikt við meðalhita þar til brúnirnar hafa þornað og loftbólur fara að ná upp úr deiginu. Þá er skonsunni snúið við, sett á hana skinkubitar og rifinn ostur, eða hvað það sem fólk á til og langar til að nota, brotin saman og steikt í tvennu lagi á ósteiktu hliðinni þar til hún er ljósgullinbrún og osturinn bráðnaður. Gott að hafa með þessu niðurskorna tómata og gúrku.
Allar ofantaldar uppskriftir geta staðið einar sem máltíð, sérstaklega ef borið er fram með þeim grænmeti eða ávextir. Það er um að gera að nota hugmyndaflugið og prófa sig áfram með matarafgangana þótt fólk kannski gangi ekki eins langt og hann frændi minn sem tók bara alla afganga sem eftir voru á föstudegi og hitaði þá saman í potti og borðaði af bestu lyst. Skipti þá engu þótt í bland væru þar steiktur fiskur, kjötbollur og eggjahræra - hann setti bara smá krydd eða tómatsósu saman við og sagði: "matur er bara næring og það skiptir engu máli hvernig hann bragðast"
29.10.2009 | 20:30
Ódýramatarlistinn
Þegar krakkarnir voru að komast á unglingsárin fannst mér mikilvægt að þau gerðu sér grein fyrir því hvað kostaði að lifa og því dró ég þau með mér í bankann að borga reikninga og búðir að kaupa inn til heimilisins. Þeim þótti þetta ekkert slæmt (sérstaklega ekki búðarferðirnar) en fóru fljótlega að hugleiða hvað hlutirnir kostuðu. Sonur minn, þá 12 ára, útbjó þá lista yfir þá matvöru sem var að hans mati ódýrust. Ég set hann hér inn óbreyttan bara svona meira til gamans.
Ódýrar nauðþurftir:
Haframjöl, sulta, egg, majones, baunir, kínakál, fiskibollur í dós, kartöflur, epli, appelsínur, kýrhakk, vatn, mjólk, undanrenna, hrísgrjón, pasta, hveiti, sykur, bananar, pakkasúpur, heimabakaðir snúðar, laukur, hvítkál, lifur og annar innmatur, Vilkósúpa, niðursoðnir ávextir, súrmjólk, skyr, kex
Ég á þennan lista enn þótt liðin séu mörg ár frá því hann var gerður og drengurinn orðinn fullorðinn
25.10.2009 | 23:25
Ekki seinna vænna að byrja á jólagjöfunum!
Akkúrat tveir mánuðir til jóla. Sem sannur nurlari er ég ekki að eyða stórfé í jólagjafir. Þið vitið að það er hugurinn sem gildir. Þannig að ég er byrjuð á jólagjöfunum. Allt heklað, prjónað og bakað. Nema kannski ef börnin mín og barnabörnin bráðvantar eitthvað sem ekki er heklað eða prjónað - þá kannski verður buddan tekin upp. Helst kaupi ég ekki nýja hluti og leita fyrst hvort það sem vantar er ekki til notað áður en ég fer í samanburðarleiðangur til að finna hagstæðasta verðið. Það er góð regla að kaupa aldrei gjafir á síðustu stundu (frekar en nokkuð annað) því þá hættir fólki til að kaupa bara eitthvað til að friða samviskuna. Heimabakað brauð eða smákökur í krukku með rauðum borða eru mun betri gjöf en eitthvað sem keypt er af hugmyndaleysi á síðustu stundu.
Nokkrar hugmyndir að heimagerðum gjöfum:
- heimabakaðar smákökur, formkökur eða brauð
- heimagerð sulta eða chutney
- heimagert konfekt
- heklaðar/prjónaðar húfur, vettlingar, handstúkur, leistar, inniskór, sjöl eða værðarvoðir
- handgert jólaskraut
- handgerðir nytjahlutir eins og diskamottur, glasamottur, dúkar, rúmteppi, púðar, innkaupapokar, sokka-/skópokar, tuskumottur, pottaleppar, hitahlífar, sparibaukar, eldhús-/garðyrkjusvuntur, hárskraut, farsímabönd/-töskur, gleraugnahulstur, skartgripir, uppskriftabækur, skipulagsbækur, heilræðabækur eða húsráðabækur og hvað annað sem ykkur dettur í hug
Látið hugmyndaflugið og tilfinningarnar í garð fólksins ykkar leiða ykkur í gjöfunum. Gjöf sem gefin er af hlýju og ástúð er besta gjöfin sama hvað hún kostar.
PS. Fann þennan link á fleiri sniðugar hugmyndir að heimagerðum jólagjöfum: http://notmadeofmoney.com/blog/2006/11/50-homemade-gift-ideas-from-around-the-web.html
18.10.2009 | 14:50
Stoppað í sokka.
Margir tala um að það borgi sig ekki að stoppa í sokka því hægt sé að kaupa svo ódýra sokka að það taki því ekki. Ég er ekki sammála. Dóttir mín fer t.d. alltaf út úr sokkum og sokkabuxum á stórutánum (jú ég klippi á henni neglurnar ) og þar sem restin af sokknum/sokkabuxunum er heil þá stoppa ég bara víst í götin
Það er enga stund gert og endir líftíma, m.a.s. lélegustu sokka, um 2 - 3 mánuði. Og mig munar um það hvort ég kaupi sokka/-buxur á 3 mánaða fresti eða 6 mánaða fresti jafnvel þótt ég fái þrennar sokkabuxur fyrir 1500kr. í Rúmfatalagernum. Sokkar slitna líka oft á hælunum og það getur borgað sig að sauma nokkra styrktarþræði í hælinn áður en komið er gat. Það er ekkert mál að stoppa í sokka og um að gera að kenna börnunum sínum það því ég er ekki viss um að það sé partur af handmenntakennslunni í grunnskólunum í dag. Hún langamma mín kenndi mér að stoppa í sokka og hún átti mjög sniðugt stoppuegg úr tré. Það mótar gatið betur undir stoppið og hindrar að auki að maður stingi sig. Það mætti líka láta krakka gera sér stoppuegg í handmennt. Eggið hennar langömmu minnar er á stærð við álftaregg og er efnið strekkt yfir það og síðan stoppað í á hefðbundinn hátt:
- stoppuþráðurinn dreginn fram og til baka yfir gatið í eina átt og síðan snúið og saumað 90° á þráðinn og þráðurinn ofinn í. Best er að þræða stoppuþráðinn ca 2cm út fyrir gatið - það styrkir stoppið enn betur.
Það er líka hægt að stoppa í aðrar flíkur en sokka og því er gott að koma sér upp fataviðgerðarkörfu með stoppugarni í helstu litum og gera við fötin frekar en henda þeim. Með því að kaupa frekar góðan fatnað og gera við hann eftir þörfum er hægt að spara sér heilmikinn pening þegar til lengri tíma er litið.
8.10.2009 | 10:30
Daglegt brauð.
Var eitthvað svo svöng í morgun. Keyrði fram hjá bakaríi og gerði það sem aldrei á að gera - tók skyndiákvörðun og keypti nýbakað, ilmandi bakaríisbrauð. Fyrir það pungaði ég út 430 krónum Nei þetta var ekki stór og mikill brauðhleifur heldur fremur lítill brauðkubbur. Að vísu með þrenns konar korni og sjálfsagt voða hollur - en ekki fyrir budduna.
Fór að hugsa um hvað myndi kosta mig mikið að baka samsvarandi brauð og komst að þeirri niðurstöðu að með öllum efniskostnaði og rafmagni væru það líklega umkring 200 krónur.
Þar sem fáir eru í heimili vill það iðulega brenna við að heilt brauð borðast ekki upp áður en það fer að skemmast. Margir grípa til þess að frysta brauð en hættir við að gleyma frosna brauðinu sem þornar í frystinum meðan sífellt bætist við nýtt brauð með því loforði að ætla nú að fara að borða brauðið úr frysti. Málið er bara að nýtt brauð er svo miklu betra en brauðið úr frystinum að frosna brauðið er ekki borðað fyrr en ekki er lengur til aur fyrir brauði. Ein vinkona mín hefur alveg séð við þessu brauðmáli - og það án brauðgerðarvélar Hún bakar brauð/bollur annan til þriðja hvern dag. Segist spara heilmikið með því og alltaf fær familían nýtt brauð. Nú er hún að fikra sig áfram með súrdeigsbrauð og er að hugsa um að fara jafnvel að baka oftar og nota brauð meira í staðinn fyrir mat þar sem öll fjölskyldan er í hádegismat á sínum vinnustað/skóla. Gæti kannski tekið þetta upp eftir henni - ef ég væri ekki svona fjandi lélegur bakari
3.10.2009 | 16:59
Safnast þegar saman kemur.
Að nurla er að horfa í hverja krónu og gæta peninganna sinna. Margir hugsa sem svo að þá muni ekki um nokkra hundraðkalla hér og þar en það er ótrúlegt hvað það getur orðið drjúgt sem sitrar út af peningum í smáupphæðum hér og þar:
Samloka úr sjoppu kostar um 400 krónur. Ef þú kaupir þér samloku eða álíka hressingu á hverjum degi í vinnu eða skóla þá gera það um 100.000 kr. á ári. Á meðan kostar hver heimasmurð samloka innan við hundrað krónur og er að auki örugglega hollari.
Manneskja sem drekkur hálfan lítra af gosi á dag fer með um 54 þúsund krónur í það á ári. Ef þú drekkur tvö glös af ávaxtasafa úr fernu á hverjum degi má reikna með að kostnaðurinn af því sé um 35 þúsund krónur á ári. Vatn úr krananum kostar innan við krónu glasið og ef endilega þarf að vera bragð af vatninu þá kostar smádropi af djúsi, saft eða sítrónusafa 2-5 krónur.
Súkkulaðistykki, bland í poka, tyggjó, snakk o.s.frv. - allt kostar þetta einhverja hundraðkalla sem verða, þegar þeir safnast saman, tugir þúsunda á hverju ári.
Og það er ekki bara hið ætilega sem kostar - hvað með óþarfa heimilismuni, leikföng, fatnað og sitthvað "sniðugt - af því bara - rosalega ódýrt ....." sem fólk lendir í að kaupa án þess að hafa endilega ætlað að kaupa nokkuð. Alltmögulegtbúðir eru hættulegastar buddunni því hlutirnir þar eru svo ódýrir að mann munar ekkert um þá - heldur maður. Dæmigert laugardagsráp í Kringlunni eða Smáralind getur kostað fólk tugi þúsunda án þess að maður hafi í raun keypt nokkuð af viti.
Hvað er líka með allar græjurnar sem alltaf er verið að reyna að selja manni? Nýr sími með nýjum fítusum sem á að vera miklu betri en sá gamli sem þó virkar ágætlega, stærra og betra sjónvarp, brauðvél, poppvél, ísvél, pizzuofn, kaffivél sem hellir upp á einn bolla í einu, ný tölva og flatskjár og áfram mætti lengi telja. Margir freistast til að kaupa sér nýjar græjur af einhverju tagi þótt gömlu græjurnar séu alveg að virka. Hvað er að því að nota gamla sjónvarpið sitt þótt það sé bara 27 tommur og hangi ekki upp á vegg?
Og talandi um síma: - símreikningur upp á tugi þúsunda er ekki eðlilegt ástand. Jú vitaskuld á maður að halda sambandi við vini og ættingja en óþarft símablaður er oft allt of stór kostnaðarliður. Það er alveg hægt að setja sér mörk þó maður sé voða elskulegur og samskiptaglaður. Til dæmis að hringja ekki í fleiri en þrjá sama daginn og tala aldrei lengur en tíu mínútur. Þannig sparast heilmiklir peningar.
Útsölur geta líka verið slæmar fyrir budduna ef maður gætir sín ekki. Margir ódýrir hlutir verða nefnilega dýrir þegar þeir koma saman.
Til að sleppa við að kaupa óþarfa er best að fara sem minnst í búðir. Ef farið er í búðir er hagstæðast að fara í fyrirfram ákveðnar búðir og kaupa fyrirfram ákveðna hluti. Ef þig vantar peysu þá skaltu kaupa þá peysu sem passar þér best en ekki 4 peysur á útsölu sem klæða þig svo alls ekki þegar þú mátar þær heima. Farðu í búðir í rólegheitum - ekki á síðustu stundu fyrir veisluna - skoðaðu, mátaðu og berðu saman verð og gæði. Oftast borgar sig að kaupa aðeins dýrari vöru sem endist en ódýrari sem e.t.v. er ónýt eftir fyrsta þvott.
Það sem allur þessi pistill gengur út á er: Hugsaðu áður en þú kaupir og láttu þig muna um krónurnar þínar. Kauptu ekkert sem þú þarft ekki jafnvel þótt það sé ódýrt. Láttu ekki glepjast af gylliboðum - þau hafa það eina margkmið að draga þig í búðina í þeirri von að þú kaupir fleira en það sem þú hugðist kaupa.
Svo mörg voru þau orð þennan ágæta laugardag. Svo óska ég ykkur góðrar helgar heima í notalegheitum - ekki ætla ég a.m.k. í búðir