Burðurinn úr búðinni.

Ég lofaði í síðasta pistli að fjalla aðeins um plastpoka í þessum pistli. Svo hér er það:

Margir kaupa plastpoka undir vörurnar í búðinni og segja sem svo að þeir geti notað þá fyrir ruslapoka. Er ekki dáldið dýrt að borga 15 krónur undir ruslið sitt? Þegar ég var að alast upp var öskutunnan úr járni og í eldhúsinu var fata sem í fór allt rusl og því var hent pokalausu í öskutunnuna Sick Dáldið ógeðslegt en ruslið brotnaði líka hraðar niður á öskuhaugunum. Spurning hvort maður takið það upp aftur - er stundum að hugsa um það. Vera bara með einn stóran poka í öskutunnunni og setja ruslið laust í hann Undecided

Jæja aftur til baka að plastpokunum - 15 krónur undir ruslið sagði ég - plastpokar á rúllu kosta ekki nema 5 kr. stykkið. Ef notaður er einn poki á dag sparar maður 3650 krónur á ári m.þ.a. nota frekar rúllupoka en innkaupapoka. Og því borgar sig að nota margnota innkaupapoka. Hægt er að fá alls konar töskur og tuðrur fyrir slikk í IKEA, Tiger og Söstrene Grene en vitaskuld er ennþá betra (og skemmtilegra) að búa til sína eigin innkaupapoka. Bara hanna þá eftir því sem hentar hverju heimili - saumaða, prjónaða heklaða. Ég var svo heppin að krakkarnir gerðu poka í leikskólanum og kvenfélagið var að selja tuðrur til styrktar góðu málefni og þannig fékk ég 3 poka. Það dugar mér oftast í vikuinnkaupunum og svo á ég 2 tuðrur til viðbótar ef ég þarf að kaupa rosalega mikið Whistling

Þegar ég var krakki voru til innkaupanet sem komust í vasa manns en dugðu þó undir mjólkurpott, skyr og brauð sem var nú það helsta sem krakkar voru sendir eftir í búðina. Fann uppskrift að slíku neti á hinu netinu Tounge og ég læt fljóta með:

zcarry68781Innkaupanet


Umbúðafár

Það er með ólíkindum hvað fellur til af plastumbúðum hjá okkur hér á Íslandi. Það er bókstaflega öllu pakkað í plast. Og jafnvel plast yfir plast. Sjáið t.d. ferskvöru eins og kjöt og fisk - frauðplastbakki og plastfilma yfir. Nú er talið nær öruggt að minnkandi frjósemi karldýra í heiminum öllum sé plasti að kenna. Plast verður nefnilega að kvenhormónlíku efni þegar það brotnar niður og kvengerir því karlpeninginn. Og óæskileg áhrif allra þessara plastumbúða eru ekki einvörðungu á lífríkið því þau hafa líka áhrif á budduna okkar. Umbúðir kosta peninga og sá kostnaður fer út í verðlagið.

Ég man þegar ég var krakki og var send með græna innkaupanetið að kaupa fisk hjá fiskkaupmanninum. Karlinn pakkaði ýsunni beint í dagblaðapappír og þannig bar maður hana heim í græna innkaupanetinu. Ekkert plast - en dálítið af prentsvertu Wink

Og mjólkin var seld á glerflöskum með þéttitappa sem notaðar voru aftur og aftur. Maður skilaði notaðri flösku og fékk fulla í staðinn. Eins og gert var með gosflöskurnar þar til plastið hafði vinninginn. Ummmm ég man hvað lítil kók í gleri með lakkrísröri smakkaðist dásamlega Joyful

Ekki er ég nú viss um að aftur verði farið að nota gler undir matvöruna en vitaskuld væri það mun hollara. En þótt áfram væru notuð plastílát finnst mér að það mætti nýta þau betur. Hvað er t.d. að því að endurnýta brúsana undan íslenska uppþvottaleginum? Getur Frigg ekki tekið við notuðum brúsum og endurfyllt þá? Hlyti það ekki að vera ódýrara en að láta sífellt framleiða nýja? Frá mínum bæjardyrum séð er það a.m.k. þannig.

Og það er ekki bara plastið sem þyrfti að nýta betur. Glerumbúðum er líka bara hent núorðið - eða muldar í glermulning og búið til nýtt gler úr þeim. Væri ekki nær að nota krukkurnar bara aftur? Getur sulta ekki farið í notaða sultukrukku? Öll þessi sóun fer alveg hrikalega fyrir brjóstið á mér.

Helst vildi ég geta farið með mínar krukkur og kyrnur út í búð og látið kaupmanninn setja hrávöruna þar beint ofan í. Hef svo sem ekki lagt í að prófa það - ætti kannski bara að sjá upplitið á mannskapnum LoL

Vitaskuld endurnýtir maður sjálfur það sem hægt er af umbúðum, en ef ég ætlaði að safna öllum nýtanlegum umbúðum sem koma inn á heimilið þyrfti ég að leggja undir mig heila blokk Woundering  En það er svo sem hægt að nota umbúðir á ýmsan hátt:

- Ísbox og aðrar umbúðir með hentugu loki undir afganga, frystivöru og nesti

- Pappakassa í ýmsum stærðum (t.d. undan morgunkorni) undir gjafir - mála að utan, líma myndir á eða láta bara halda sér eins og þeir eru Tounge

- Hægt er að nota mjólkur-/safafernur sem bökunarform - sérstaklega sniðugt þegar gera á seitt rúgbrauð

- Endurnýta sultukrukkur undir heimalagaða sultu og chutney, sem skrautílát á baðherbergi undir hárteygjur, spennur, tannbursta og bómullarhnoðra, á skrifstofunni undir bréfaklemmur og töflupinna og svo er hægt að föndra úr þeim blómavasa, sparibauka og fleira.

Í svipinn man ég ekki fleira en það er um að gera að lofa ímyndunaraflinu að ráða og hugsa í hvert sinn sem maður neyðist til að kaupa eitthvað í umbúðum - "í hvað get ég notað þær?" En helst ætti maður náttúrulega að velja vörur með sem minnstum umbúðum.

Ég minntist á innkaupanet hér í byrjun - kannski ég fjalli aðeins um plastpokana í næst pistli Smile

sunday


Drip drop

Í kjölfar sápuumræðu er viðeigandi að minnast aðeins á heita vatnið. Við erum heppnir Íslendingar að eiga heitt vatn í iðrum jarðar en líkt og aðrar auðlindir er heita vatnið ekki óþrjótandi og okkur ber skylda að fara sparlega með það - ekki einungis til að lækka heitavatnsreikningin heldur einnig til að afkomendur okkar fái að njóta þessarar yndislegu auðlindar.

Ég man hvað ég varð undrandi þegar ung kona frá útlöndum sagði mér að hún skrúfaði fyrir vatnið á meðan hún sápaði sig í sturtunni. Í hennar landi var notað rafmagn til að hita vatnið og það ekki af ódýra taginu þannig að þetta var til siðs heima hjá henni. Og þetta vakti mig til umhugsunar um það hvað við tökum heita vatninu sem sjálfsögðum hlut - a.m.k. á þeim stöðum þar sem hitaveita er. Ég dauðskammaðist mín og ákvað að reyna eins og ég gæti að hætta að ofnota auðlindina okkar. Það geri ég m.a. með því að:

- Sleppa því að nota baðkerið

- Stilla blöndunartækið í sturtunni á lægsta þolanlegan hita

- Nota sturtuna einungis til að þvo mér - ekkert notó heitavatnsnudd fyrir mig takk

- Nota kalt eða moðvolgt vatn við handþvott

- Láta heita vatnið aldrei renna að óþörfu - skola t.d. leirtauið með volgu vatni og þvo upp úr vaskinum en ekki undir heitri bunu

- Stilla húshitanum í hóf og skrúfa fyrir ofna þegar hlýtt er úti

Man nú ekki fleira í bili sem ég geri til að spara heita vatnið en um leið og maður verður meðvitaður um að spara það þá gerist það af sjálfu sér að allt vatnsrennslið verður einhvern vegin minna.

take-a-cold-shower-19178


Hreint út sagt!

Hreinlæti er næst Guðdómnum sagði einhversstaðar. Og víst er það að flestum líður betur ef búkurinn er hreinn. Þetta vita snyrtivöruframleiðendur og keppast við að selja okkur alls konar dót sem á að gera okkur hreinni og betur lyktandi en nokkuð annað. En öllu má ofgera og allt það magn af sápum, sjampói og ýmsum hreinlætisvörum sem við notum er farið að hafa slæm áhrif á lífríki jarðarinnar. Og sá peningur sem við eyðum í þetta er allt of mikill, að mínu mati. Þegar ég fór að spara reiknaði ég það út að gamaldags hörð sápa er helmingi ódýrari en pumpusápan og endist 4-5 sinnum lengur. Til að þvo hárið þarf ekki nema sem samsvarar 1-2 teskeiðum af sjampói og af hárnæringu þarf ekki nema eina teskeið. Núna dugar sjampóbrúsinn í 2 mánuði og hárnæringin í 4. Þótt þetta sé e.t.v. ekki mikill sparnaður þá munar um minna og mér finnst ég líka vera að leggja af mörkum til náttúrunnar með því að nota minni sápu.

Þannig að það er hægt að vera hreinn án þess að sápulöðrið fljóti út úr baðherberginu Wink

hand_washing

Óþarflega mikil sápa!!!!!


Hvað er í matinn?

.. heyrist spurt og þú grípur þig í að líta angistarfullum augum inn í ísskápinn í von um að finna eitthvað sem hægt er að nota til matargerðar. En það er alveg sama hvað maður opnar ísskápinn oft - ef ekki hefur verið hugsað til matargerðar þá er harla ólíklegt að þar finnist nokkuð bitastætt (ja nema fólk sé hrifið af gömlu brauði með súrum gúrkum og tómatsósu). Og þar sem ekkert finnst í ísskápnum og allir eru orðnir svangir er skutlast eftir skyndibita. Dáldið dýrt að lifa svona viku eftir viku.

Jafnvel þótt ástandið sé ekki svona slæmt er dýrt að kaupa daglega í matinn. Þegar farið er í búð vill gjarnan slæðast með í körfuna eitthvað sem ekki átti að kaupa - svangur maður í lok vinnudags er ekki ólíklegur til að kaupa sér súkkulaðistykki við kassann og þetta vita búðareigendur - og því oftar sem farið er í búð því fleiri verða hlutirnir sem keyptir eru "óvart".

Besta ráðið sem ég get gefið við þessum matarhöfuðverk er að skipuleggja matarinnkaupin fyrirfram út frá því sem til er í matinn nú þegar og því sem ætlunin er að hafa í matinn þessa vikuna.

Byrjaðu á að gera matseðil fyrir alla vikuna sem framundan er. Reyndu að nota það sem til er í frystinum og ísskápnum í matseðilinn og finndu svo út hvað vantar upp á til að geta eldað viðkomandi rétt. Skrifaðu út frá því innkaupalista og bættu inn í hann millimáltíðum og meðlæti og öðru sem þarf að eiga.

Dæmi um Matseðil og samsvarandi innkaupalista fyrir einn dag:

Morgunmatur = cheerios með mjólk og lýsi, nesti í skólann/vinnuna = samloka með smjörva, skinku og osti, epli í bitum og léttmjólk, síðdegishressing = banani, kvöldmatur = steiktur fiskur, laukur, kartöflur, gulrótasalat, sítrónusafi og vatn, kvöldhressing = jarðaberjasmúþí.

Í skápnum á ég hálfan pakka af Cheerios sem dugar ekki fyrir okkur út vikuna þar sem Cheerios er á borðum alla morgna nema á laugardögum svo það fer á listann, það er til nóg af lýsi, það vantar brauð, smjörva og skinku en stóri osturinn sem keyptur var síðast dugar út vikuna. Til eru tvö epli svo best er að kaupa 6 til viðbótar og einnig 8 banana og 8 ávexti sem eru ódýrastir þessa vikuna. Börnin þurfa léttmjólk með sér í skólann þannig að kaupa þarf nóg fyrir 5 daga af skólamjólk og að auki næga mjólk út á morgunkornið alla dagana og til matargerðar (grjónagrautur á miðvikudaginn). Svo finnst mér best að hafa bláa mjólk í kaffið mitt þannig að ég kaupi alltaf eina bláa bara fyrir mig. Við eigum fisk í frysti og raspi er til nóg af sem og olíu til steikingar og í ísskápnum eru 2 laukar sem duga og að auki hálfur poki af gulrótum og sítrónusafi í brúsa. Það vantar hins vegar kartöflur og farið er að minnka í saltstauknum svo það fer á innkaupalistann. Í jarðaberjasmúþíinn nota ég súrmjólk og frosin jarðarber. Það er til nóg af berjum en lítið eftir af súrmjólkinni svo hún fer á listann.

Svona fer ég yfir næstu 7-8 daga og reyni að finna út hvernig nýta má einnig það sem þarf hvort sem er að kaupa fyrir aðrar máltíðir vikunnar. Einnig þarf að skoða byrgðastöðuna á kryddum, sykri, hveiti og öðru sem notað er jafnt og þétt. Til að létta mér að muna eftir öllu sem mögulega vantar á ég excel skjal yfir allt sem keypt er til heimilisins og er það notað sem tékklisti áður en gengið er endanlega frá innkaupalistanum. Er því miður ekki nógu tölvuflink til að koma innkaupalistanum mínum hér inn en vonast til að mér takist það seinna.

Svo er farið í lágvöruverðsverslun með stóra innkaupalistann fyrir alla næstu viku - ég fer helst á mánudögum því þá er fremur rólegt og líka af því að vikan er þá framundan - og af því ég er svoddan patríot þá kaupi ég helst íslenskar vörur þótt þær séu aðeins dýrari nema þegar maður er ferlega blankur þá er bara valið það ódýrasta.

Maður er fljótur að verða háður þessari rútínu og finnur greinilega hvernig matarreikningurinn lækkar. Þeir sem eru virkilega forsjálir gera 6 vikna rúllumatseðil og geta þannig skipulagt sig langt fram í tímann - en ég er nú ekki svo skipulögð - ein vika í einu er nóg fyrir mig Wink

Ó þetta er svo skemmtilegt - ég geri matseðilinn og innkaupalistann minn alltaf á sunnudögum og virkilega nýt þess að skoða í skápana mína og frystinn og finna uppskriftir að góðum, hollum og ódýrum mat. Þegar ég byrjaði fyrst á þessu þá notaði ég tækifærið og prófaði eina nýja uppskrift í hverri viku. Það gafst mjög vel og fjölskyldan var ákaflega sátt við tilbreytinguna. Ef okkur líkaði nýja uppskriftin fór hún á fasta matarlistann en annars bara í ruslið. Núna á ég nóg af uppskriftum til að gera 6 vikna rúllu þar sem aldrei væri það sama í matinn - en ég nenni því bara ekki LoL

shopping-purchase-buy_~GS082021


Nurlararáð 1

Já hvar skal byrja þegar af nógu er að taka?

Jú kannski besta ráði nýzkupúkans en það er að vita hvað maður á mikinn pening og í hvað hann fer. Drepleiðinlegt segið þið! Þetta þarf nú ekkert að vera leiðinlegt því eins og flest annað í sambandi við nurlið er þetta talsverð áskorun.

Fáið ykkur litla vasabók og penna (það má nota samanbrotin afgangsblöð ef á að spara  Wink  ) og hafið alltaf í veskinu ykkar. Í byrjun mánaðar skrifið þið í hana hvað kemur inn af peningum. Síðan takið þið frá allar fastar greiðslur og ca 10 - 20 þús til að dekka óvæntan kostnað. Restin er ráðstöfunarféð ykkar þann mánuðinn. Síðan skrifið þið allar upphæðir sem eyðast í litlu bókina og dragið frá því sem til er. Keppnin stendur síðan um það hvað næst að nota lítinn pening og hversu mikið verður eftir í enda mánaðar.

Í byrjun er þetta dáldið maus en þetta venst fljótt. Ef þið eruð í mínus áður en þið byrjið mánuðinn getur borgað sig að fara í bankann sinn og fá ráðleggingar um niðurgreiðslu mínussins. Einnig er best að vera laus við Visakortið því það ruglar niðurstöðuna ef lítill peningur kemur inn. Þá er maður búinn að eyða laununum mánuði fram í tíman og það er ómögulegt og alls ekki í anda nurlara Smile 

Jæja nóg komið af leiðinlegu efni frá Nurlaranum í bili Whistling  Tounge

gullkista


Nurlarabyrjun.

Halló elskurnar mínar.

Ég hef lengi gengið með það í maganum að blogga dáldið um nurl og nýzku og leiðir til að spara sem mest og best. Í þessu árferði þarf að halda í hverja krónu og grunnurinn í nurlinu er að nota ekki peningana sína nema til þarfra hluta. Læra að þekkja muninn á að langa í eða vanta og nota ekki peninga nema þess gerist virkilega þörf.

Það er ekki þar með sagt að maður geti ekki lifað ágætis lífi og oft er virkilega skemmtilegt að velta því fyrir sér hvernig maður geti sparað sem mest. Hjá mér er þetta orðið hið mesta sport og keppni um hvað ég geti komist af með lítið Wink

En í þessu fyrsta nurlbloggi ætla ég að gefa ykkur vefsíður sem styðja enn frekar nurlið:

hér er gamla nýzkupúkasíðan mín:  http://barnaland.is/barn/66370/

og hér eru nokkrar til viðbótar:

http://okursidan.blogspot.com/

http://hillbillyhousewife.com

www.allthingsfrugal.com/

Eigið gott kvöld og gleðilegan morgundag,

Nurlarinn


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband