8.10.2009 | 10:30
Daglegt brauð.
Var eitthvað svo svöng í morgun. Keyrði fram hjá bakaríi og gerði það sem aldrei á að gera - tók skyndiákvörðun og keypti nýbakað, ilmandi bakaríisbrauð. Fyrir það pungaði ég út 430 krónum Nei þetta var ekki stór og mikill brauðhleifur heldur fremur lítill brauðkubbur. Að vísu með þrenns konar korni og sjálfsagt voða hollur - en ekki fyrir budduna.
Fór að hugsa um hvað myndi kosta mig mikið að baka samsvarandi brauð og komst að þeirri niðurstöðu að með öllum efniskostnaði og rafmagni væru það líklega umkring 200 krónur.
Þar sem fáir eru í heimili vill það iðulega brenna við að heilt brauð borðast ekki upp áður en það fer að skemmast. Margir grípa til þess að frysta brauð en hættir við að gleyma frosna brauðinu sem þornar í frystinum meðan sífellt bætist við nýtt brauð með því loforði að ætla nú að fara að borða brauðið úr frysti. Málið er bara að nýtt brauð er svo miklu betra en brauðið úr frystinum að frosna brauðið er ekki borðað fyrr en ekki er lengur til aur fyrir brauði. Ein vinkona mín hefur alveg séð við þessu brauðmáli - og það án brauðgerðarvélar Hún bakar brauð/bollur annan til þriðja hvern dag. Segist spara heilmikið með því og alltaf fær familían nýtt brauð. Nú er hún að fikra sig áfram með súrdeigsbrauð og er að hugsa um að fara jafnvel að baka oftar og nota brauð meira í staðinn fyrir mat þar sem öll fjölskyldan er í hádegismat á sínum vinnustað/skóla. Gæti kannski tekið þetta upp eftir henni - ef ég væri ekki svona fjandi lélegur bakari