5.1.2010 | 23:40
Jólin búin
Jæja - þar renna jólin sitt skeið. Hafði ekki brjóst í mér að nurla í jólamatnum þannig að undanfarinn hálfan mánuð hefur fjölskyldan staðið á blístri og haft það betra en alla hina 350 daga ársins. Enda sést það á mittismálinu
En nú skal blaðinu snúið við - í kvöldmatinn nú var grjónagrautur, egg og rúgbrauð. Og svo eru til smá kjötafgangar frá jólum sem ætlunin er að nýta um leið og ofátsbjúgurinn hefur runnið af mannskapnum Ég er eiginlega hálffegin að komast aftur í rútínuna með matar- og innkaupalistann. Og nú þarf að reikna matarafgangana inn í því það er ákaflega mikilvægt að kunna að elda lystilegan mat úr afgöngum. Þetta gerðu formæður okkar og eins ættum við að leggja okkur fram um að nýta vel allan mat. því nú má einnig reikna með að það fari að harðna á dalnum.
Bixímatur úr afgangskjöti:
Afgangskjöt (ekki reykt) í litlum bitum steikt á pönnu. Í feitinni af því er steiktur einn smátt skorinn laukur þannig að hann mýkist en brenni ekki. Tekinn af pönnunni og á henni steiktar smátt sneiddar soðnar kartöflur þar til þær hafa tekið gullinn lit. Þá er kjötinu og lauknum hellt aftur á pönnuna, saltað aðeins og piprað yfir og hitað vel í gegn. Borið fram með heitu rauðkáli. Sumir vilja líka hafa með þessu spælegg.
Tartalettur með hamborgarhryggsfyllingu:
Búið til þykkt uppstúf úr safanum úr einni dós af niðursoðnum sveppum, settur smá sítrónusafi út í, og smátt skornum bitum af hamborgarhrygg og sveppunum blandað saman við. Hitað vel saman. Sett í tartalettur (það má líka nota brauðsneiðar) og sett sneið af mildum osti yfir. Hitað í ofni við 200°C þar til osturinn hefur bráðnað. Með þessu er gott að hafa rauðkál og/eða eplasalat.
Eplasalat:
Þetta salat er mjög vinsælt heima hjá mér um jólin og fer einstaklega vel með hamborgarhrygg. Þrjú Fiji epli eða rauð epli skorin í litla teninga. Tveir til þrír stönglar af sellerí skornir í örsmáa bita. Einn bolli af smátt skornum rauðbeðum. Hálf dós af sýrðum rjóma og einn bolli majones hrært saman og síðan er öllum hráefnunum blandað saman. Kælt í a.m.k. klukkutíma áður en það er borðað.
Grjónagrautarlummur:
Slatti af afgangs grjónagraut hrærður vel upp þannig að hann sé kekkjalaus. Tvö egg hrærð út í og síðan smá mjólk. Bætt í hræruna slettu af vanilludropum og teskeið af sykri. Einn bolli af hveiti og teskeið af lyftidufti hrærð út í og síðan er mjólk hrærð hægt saman við þar til blandan er álíka þykk og vellingur. Ekki hafa hana of þunna því þá lekur hún út og grjónin standa upp úr. Að lokum er bætt í blönduna 1/4 bolla af bráðnu smjörlíki og panna smurð vel með því sama. Hitið pönnuna í miðlungshita og setjið blönduna með stórri matskeið/sósuausu í 5 - 10 cm klatta á hana. Steikið þar til brúnirnar hafa þornað og loftbólur stíga í gegn um lummuna. Snúið þá við og steikið ljósbrúnar hinum megin. Ath. að hafa ekki of mikinn hita því þá steikjast lummurnar að utan en verða hráar að innan. Í minni fjölskyldu þykir rosa gott að hafa eplamauk og sultu með lummunum en sumir vilja síróp og sykur. Allt eftir smag og behag. Ég hef líka prófað að nota hafragraut í lummur og það virkar alveg sæmilega en er ekki eins auðvelt og gott.
Skinkuskonsur:
Skonsudeig búið til úr hálfum lítra af hveiti, tveim teskeiðum af lyftidufti, teskeið af salti, tveim eggjum. Mjólk blandað í þar til deigið er á þykkt við vöffludeig. Þá er bræddu smjörlíki blandað út í og pönnukökupannan einnig smurð með smjörlíki. Deigið látið dreifa sér yfir pönnuna og skonsan steikt við meðalhita þar til brúnirnar hafa þornað og loftbólur fara að ná upp úr deiginu. Þá er skonsunni snúið við, sett á hana skinkubitar og rifinn ostur, eða hvað það sem fólk á til og langar til að nota, brotin saman og steikt í tvennu lagi á ósteiktu hliðinni þar til hún er ljósgullinbrún og osturinn bráðnaður. Gott að hafa með þessu niðurskorna tómata og gúrku.
Allar ofantaldar uppskriftir geta staðið einar sem máltíð, sérstaklega ef borið er fram með þeim grænmeti eða ávextir. Það er um að gera að nota hugmyndaflugið og prófa sig áfram með matarafgangana þótt fólk kannski gangi ekki eins langt og hann frændi minn sem tók bara alla afganga sem eftir voru á föstudegi og hitaði þá saman í potti og borðaði af bestu lyst. Skipti þá engu þótt í bland væru þar steiktur fiskur, kjötbollur og eggjahræra - hann setti bara smá krydd eða tómatsósu saman við og sagði: "matur er bara næring og það skiptir engu máli hvernig hann bragðast"
Athugasemdir
Fínar uppskriftir hjá þér og ég verð að segja að ég er ekki sammála frænda þínum, það skiptir máli hvernig bragðið er og þá sérstaklega þegar matreitt er úr afgöngum
Gleðilegt ár
Jónína Dúadóttir, 6.1.2010 kl. 22:37