26.9.2009 | 23:04
Drip drop
Í kjölfar sápuumræðu er viðeigandi að minnast aðeins á heita vatnið. Við erum heppnir Íslendingar að eiga heitt vatn í iðrum jarðar en líkt og aðrar auðlindir er heita vatnið ekki óþrjótandi og okkur ber skylda að fara sparlega með það - ekki einungis til að lækka heitavatnsreikningin heldur einnig til að afkomendur okkar fái að njóta þessarar yndislegu auðlindar.
Ég man hvað ég varð undrandi þegar ung kona frá útlöndum sagði mér að hún skrúfaði fyrir vatnið á meðan hún sápaði sig í sturtunni. Í hennar landi var notað rafmagn til að hita vatnið og það ekki af ódýra taginu þannig að þetta var til siðs heima hjá henni. Og þetta vakti mig til umhugsunar um það hvað við tökum heita vatninu sem sjálfsögðum hlut - a.m.k. á þeim stöðum þar sem hitaveita er. Ég dauðskammaðist mín og ákvað að reyna eins og ég gæti að hætta að ofnota auðlindina okkar. Það geri ég m.a. með því að:
- Sleppa því að nota baðkerið
- Stilla blöndunartækið í sturtunni á lægsta þolanlegan hita
- Nota sturtuna einungis til að þvo mér - ekkert notó heitavatnsnudd fyrir mig takk
- Nota kalt eða moðvolgt vatn við handþvott
- Láta heita vatnið aldrei renna að óþörfu - skola t.d. leirtauið með volgu vatni og þvo upp úr vaskinum en ekki undir heitri bunu
- Stilla húshitanum í hóf og skrúfa fyrir ofna þegar hlýtt er úti
Man nú ekki fleira í bili sem ég geri til að spara heita vatnið en um leið og maður verður meðvitaður um að spara það þá gerist það af sjálfu sér að allt vatnsrennslið verður einhvern vegin minna.
Athugasemdir
Þetta eru fín ráð hjá þér og svo sjálfsagt að gera þetta, ég hef notað þetta síðan ég flutti í hús með hitaveitu, við bjuggum á köldu svæði hérna uppi í fjalli og hituðum vatnið með rafmagni. Ég vil ekki hafa baðker, en ég skrúfa að vísu ekki fyrir sturtuna á meðan ég sápa mig... en er alltaf mjög snögg í sturtu
Jónína Dúadóttir, 27.9.2009 kl. 07:53
Nurlari og nýzkupúki, 27.9.2009 kl. 08:22