Umbúðafár

Það er með ólíkindum hvað fellur til af plastumbúðum hjá okkur hér á Íslandi. Það er bókstaflega öllu pakkað í plast. Og jafnvel plast yfir plast. Sjáið t.d. ferskvöru eins og kjöt og fisk - frauðplastbakki og plastfilma yfir. Nú er talið nær öruggt að minnkandi frjósemi karldýra í heiminum öllum sé plasti að kenna. Plast verður nefnilega að kvenhormónlíku efni þegar það brotnar niður og kvengerir því karlpeninginn. Og óæskileg áhrif allra þessara plastumbúða eru ekki einvörðungu á lífríkið því þau hafa líka áhrif á budduna okkar. Umbúðir kosta peninga og sá kostnaður fer út í verðlagið.

Ég man þegar ég var krakki og var send með græna innkaupanetið að kaupa fisk hjá fiskkaupmanninum. Karlinn pakkaði ýsunni beint í dagblaðapappír og þannig bar maður hana heim í græna innkaupanetinu. Ekkert plast - en dálítið af prentsvertu Wink

Og mjólkin var seld á glerflöskum með þéttitappa sem notaðar voru aftur og aftur. Maður skilaði notaðri flösku og fékk fulla í staðinn. Eins og gert var með gosflöskurnar þar til plastið hafði vinninginn. Ummmm ég man hvað lítil kók í gleri með lakkrísröri smakkaðist dásamlega Joyful

Ekki er ég nú viss um að aftur verði farið að nota gler undir matvöruna en vitaskuld væri það mun hollara. En þótt áfram væru notuð plastílát finnst mér að það mætti nýta þau betur. Hvað er t.d. að því að endurnýta brúsana undan íslenska uppþvottaleginum? Getur Frigg ekki tekið við notuðum brúsum og endurfyllt þá? Hlyti það ekki að vera ódýrara en að láta sífellt framleiða nýja? Frá mínum bæjardyrum séð er það a.m.k. þannig.

Og það er ekki bara plastið sem þyrfti að nýta betur. Glerumbúðum er líka bara hent núorðið - eða muldar í glermulning og búið til nýtt gler úr þeim. Væri ekki nær að nota krukkurnar bara aftur? Getur sulta ekki farið í notaða sultukrukku? Öll þessi sóun fer alveg hrikalega fyrir brjóstið á mér.

Helst vildi ég geta farið með mínar krukkur og kyrnur út í búð og látið kaupmanninn setja hrávöruna þar beint ofan í. Hef svo sem ekki lagt í að prófa það - ætti kannski bara að sjá upplitið á mannskapnum LoL

Vitaskuld endurnýtir maður sjálfur það sem hægt er af umbúðum, en ef ég ætlaði að safna öllum nýtanlegum umbúðum sem koma inn á heimilið þyrfti ég að leggja undir mig heila blokk Woundering  En það er svo sem hægt að nota umbúðir á ýmsan hátt:

- Ísbox og aðrar umbúðir með hentugu loki undir afganga, frystivöru og nesti

- Pappakassa í ýmsum stærðum (t.d. undan morgunkorni) undir gjafir - mála að utan, líma myndir á eða láta bara halda sér eins og þeir eru Tounge

- Hægt er að nota mjólkur-/safafernur sem bökunarform - sérstaklega sniðugt þegar gera á seitt rúgbrauð

- Endurnýta sultukrukkur undir heimalagaða sultu og chutney, sem skrautílát á baðherbergi undir hárteygjur, spennur, tannbursta og bómullarhnoðra, á skrifstofunni undir bréfaklemmur og töflupinna og svo er hægt að föndra úr þeim blómavasa, sparibauka og fleira.

Í svipinn man ég ekki fleira en það er um að gera að lofa ímyndunaraflinu að ráða og hugsa í hvert sinn sem maður neyðist til að kaupa eitthvað í umbúðum - "í hvað get ég notað þær?" En helst ætti maður náttúrulega að velja vörur með sem minnstum umbúðum.

Ég minntist á innkaupanet hér í byrjun - kannski ég fjalli aðeins um plastpokana í næst pistli Smile

sunday


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Svo hjartanlega sammála.

, 27.9.2009 kl. 21:46

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég líka

Jónína Dúadóttir, 28.9.2009 kl. 13:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband