Safnast þegar saman kemur.

Að nurla er að horfa í hverja krónu og gæta peninganna sinna. Margir hugsa sem svo að þá muni ekki um nokkra hundraðkalla hér og þar en það er ótrúlegt hvað það getur orðið drjúgt sem sitrar út af peningum í smáupphæðum hér og þar:

Samloka úr sjoppu kostar um 400 krónur. Ef þú kaupir þér samloku eða álíka hressingu á hverjum degi í vinnu eða skóla þá gera það um 100.000 kr. á ári. Á meðan kostar hver heimasmurð samloka innan við hundrað krónur og er að auki örugglega hollari.

Manneskja sem drekkur hálfan lítra af gosi á dag fer með um 54 þúsund krónur í það á ári. Ef þú drekkur tvö glös af ávaxtasafa úr fernu á hverjum degi má reikna með að kostnaðurinn af því sé um 35 þúsund krónur á ári. Vatn úr krananum kostar innan við krónu glasið og ef endilega þarf að vera bragð af vatninu þá kostar smádropi af djúsi, saft eða sítrónusafa 2-5 krónur.

Súkkulaðistykki, bland í poka, tyggjó, snakk o.s.frv. - allt kostar þetta einhverja hundraðkalla sem verða, þegar þeir safnast saman, tugir þúsunda á hverju ári.

Og það er ekki bara hið ætilega sem kostar - hvað með óþarfa heimilismuni, leikföng, fatnað og sitthvað "sniðugt - af því bara - rosalega ódýrt ....." sem fólk lendir í að kaupa án þess að hafa endilega ætlað að kaupa nokkuð. Alltmögulegtbúðir eru hættulegastar buddunni því hlutirnir þar eru svo ódýrir að mann munar ekkert um þá - heldur maður. Dæmigert laugardagsráp í Kringlunni eða Smáralind getur kostað fólk tugi þúsunda án þess að maður hafi í raun keypt nokkuð af viti.

Hvað er líka með allar græjurnar sem alltaf er verið að reyna að selja manni? Nýr sími með nýjum fítusum sem á að vera miklu betri en sá gamli sem þó virkar ágætlega, stærra og betra sjónvarp, brauðvél, poppvél, ísvél, pizzuofn, kaffivél sem hellir upp á einn bolla í einu, ný tölva og flatskjár og áfram mætti lengi telja. Margir freistast til að kaupa sér nýjar græjur af einhverju tagi þótt gömlu græjurnar séu alveg að virka. Hvað er að því að nota gamla sjónvarpið sitt þótt það sé bara 27 tommur og hangi ekki upp á vegg?

Og talandi um síma: - símreikningur upp á tugi þúsunda er ekki eðlilegt ástand. Jú vitaskuld á maður að halda sambandi við vini og ættingja en óþarft símablaður er oft allt of stór kostnaðarliður. Það er alveg hægt að setja sér mörk þó maður sé voða elskulegur og samskiptaglaður. Til dæmis að hringja ekki í fleiri en þrjá sama daginn og tala aldrei lengur en tíu mínútur. Þannig sparast heilmiklir peningar.

Útsölur geta líka verið slæmar fyrir budduna ef maður gætir sín ekki. Margir ódýrir hlutir verða nefnilega dýrir þegar þeir koma saman.

Til að sleppa við að kaupa óþarfa er best að fara sem minnst í búðir. Ef farið er í búðir er hagstæðast að fara í fyrirfram ákveðnar búðir og kaupa fyrirfram ákveðna hluti. Ef þig vantar peysu þá skaltu kaupa þá peysu sem passar þér best en ekki 4 peysur á útsölu sem klæða þig svo alls ekki þegar þú mátar þær heima. Farðu í búðir í rólegheitum - ekki á síðustu stundu fyrir veisluna - skoðaðu, mátaðu og berðu saman verð og gæði. Oftast borgar sig að kaupa aðeins dýrari vöru sem endist en ódýrari sem e.t.v. er ónýt eftir fyrsta þvott.

Það sem allur þessi pistill gengur út á er: Hugsaðu áður en þú kaupir og láttu þig muna um krónurnar þínar.  Kauptu ekkert sem þú þarft ekki jafnvel þótt það sé ódýrt. Láttu ekki glepjast af gylliboðum - þau hafa það eina margkmið að draga þig í búðina í þeirri von að þú kaupir fleira en það sem þú hugðist kaupa.

Svo mörg voru þau orð þennan ágæta laugardag. Svo óska ég ykkur góðrar helgar heima í notalegheitum - ekki ætla ég a.m.k. í búðir Tounge

black-friday-shopping,E-D-170293-13


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég ætla ekkert í búðir heldur, mér finnst það nefnilega alveg afspyrnu leiðinlegtGóða helgi

Jónína Dúadóttir, 3.10.2009 kl. 19:14

2 Smámynd:

Sem betur fer er ég að vinna um helgina og kemst ekki í búðir  

, 4.10.2009 kl. 10:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband